Slæmir nágrannar

okt. 21, 2021

Sum okkar kannast við að eiga eða hafa einhvern tímann átt erfiða nágranna. Í mörgum tilvikum er hægt að eiga við misjafna umgengni og deilur, t.d. í sameign. Það getur verið öllu erfiðara að eiga við nágranna sem býr í einbýlishúsi eða eigin eign. Til dæmis ef fólkið í næsta húsi sinnir ekki eigninni og allt er í niðurníðslu þannig að þig verkjar í augun í hvert sinn sem þú stígur út úr húsi.


Heildarlög um nábýli eða grenndarrétt hafa ekki verið sett hér á landi eins og í sumum nágrannaríkjum okkar. Það eru því fyrst og fremst óskráðar reglur sem gilda á þessu sviði hérlendis. 


Algilt er að nágranni þarf að þola nokkur óþægindi af nágrannalóð sinni, og ræður úrslitum í málum um grenndarrétt hvort eigandi fasteignar hafi farið yfir þau mörk sem nágranninn á að þurfa að þola. Grenndarreglur hafa því í reynd tvær hliðar, annars vegar að vernda eignarrétt þess sem verður fyrir óþægindum og hins vegar að takmarka eignarráð þess sem er að valda óþægindunum. Það er því mikilvægt að líta bæði til hagsmuna þess lóðareiganda sem nýta vill athafnafrelsi á fasteign sinni sem og hins nágrannans sem njóta vill sinnar eignar í friði.


Þar sem engin ein regla gildir um þetta álitamál þarf að meta vægi hagsmuna hvors nágranna fyrir sig. Slíkt mat er ætíð háð hverju tilviki fyrir sig og ræðst matið einkum af því hvort farið hafi verið yfir þau mörk sem grenndarreglurnar setja eða eru eðlileg og sanngjörn.


Að því sögðu hvílir rík skylda á lóðareiganda að passa það að ekki sé neitt á lóð hans sem valdi slysahættu eða hættu á öðru tjóni, og þá ekki síst á lóðamörkum. Börn og óvitar eru þeir sem helst reynir á í því sambandi. Sé því slysahætta fyrir hendi veldur það ríkri athafnaskyldu af hálfu fasteignareigandans að gera úrbætur þar úr.


Þá hefur einnig borið við því í dómum hér á landi að sjónmengun geti verið grundvöllur skaðabóta. Því hefur helst borið við þegar bæjarfélög ákveða deiliskipulag sem breytir til muna útsýni frá fasteignum fólks.

Pistlar

Hlutleysi fasteignasala
22 Oct, 2021
Mikill meirihluti Íslendinga kaupir fasteign einhvern tímann á lífsleiðinni og verður þá að nýta sér þjónustu fasteignasala. Löggiltir fasteignasalar hafa einkaleyfi til þess að hafa milligöngu um kaup og sölu fasteigna hér á landi samkvæmt lögum um sölu fasteigna og skipa. Hér á landi sér einn og sami fasteignasalinn öllu jafna um hver fasteignaviðskipti en í sumum nágrannaríkjum okkar hafa seljandi og kaupandi hvor sinn fasteignasalann til að annast viðskiptin.
Tilkynning um galla
21 May, 2021
Kaupandi fasteignar uppgötvar oftast ekki galla á fasteigninni, aðra en þá sem upplýst hefur verið um áður en kaup tókust, fyrr en eftir afhendingu eignarinnar. Þá hvílir sú skylda á kaupandanum að kanna eignina gaumgæfilega.
Fasteignagalli eður ei
12 May, 2021
Með afhendingu fasteignar fá kaupendur hana til umráða og fá þá tækifæri til þess að kynna sér eignina mun betur en áður. Þá kemur stundum eitt og annað í ljós sem kaupendum kann að hafa yfirsést við fyrri skoðanir.
Share by: