Fasteignagalli eður ei.
Með afhendingu fasteignar fá kaupendur hana til umráða og fá þá tækifæri til þess að kynna sér eignina mun betur en áður. Þá kemur stundum eitt og annað í ljós sem kaupendum kann að hafa yfirsést við fyrri skoðanir. Þótt kaupendur við þessar aðstæður geti fundið ýmislegt að ástandi eignarinnar þá er ekki þar með sagt að um galla sé að ræða í skilningi laga. Aldur fasteignarinnar, fyrri skoðun kaupanda og aðgæsluskylda þeirra geta haft áhrif á þetta mat. Hinn meinti galli þarf að vera það mikill að hann rýri verðmæti eignarinnar svo nokkru varði. Þannig hefur verið gengið út frá því að kostnaður við úrbætur á ágalla verði að nema a.m.k. 10% af kaupverð til þess að hægt sé að fella hann undir gallahugtak laga.
Afar brýnt er að kaupandi kanni til hlítar hvort ofangreindu 10% viðmiði sé náð áður en gripið er til aðgerða gegn seljanda. Þannig hafa dómstólar til að mynda hafnað beitingu stöðvunarréttar kaupanda í tilvikum þar sem ágalli á fasteign var ekki talinn rýra verðmæti eignarinnar svo nokkru varði. Besta leiðin er að fá mat fagaðila á kostnaði við úrbætur áður en ágreiningur er borinn undir dóm eða mat dómkvadds matsmanns eftir atvikum. Þrátt fyrir þetta er kaupanda alltaf opin sú leið að ganga til samninga við seljanda um afslátt eða eftirgjöf kaupverðsins að hluta.
Pistlar

