Hlutleysi fasteignasala
Mikill meirihluti Íslendinga kaupir fasteign einhvern tímann á lífsleiðinni og verður þá að nýta sér þjónustu fasteignasala. Löggiltir fasteignasalar hafa einkaleyfi til þess að hafa milligöngu um kaup og sölu fasteigna hér á landi samkvæmt lögum um sölu fasteigna og skipa. Hér á landi sér einn og sami fasteignasalinn öllu jafna um hver fasteignaviðskipti en í sumum nágrannaríkjum okkar hafa seljandi og kaupandi hvor sinn fasteignasalann til að annast viðskiptin.
Fasteignasalar hér á landi eru skuldbundnir að lögum að gæta réttmætra hagsmuna bæði kaupanda og seljanda til jafns og gæta þess að hvorugum séu settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum.
Lykilatriði í þessu sambandi er sjálfstæði fasteignasala í störfum og að þeir séu óháðir í störfum sínum. Í þessu felst að fasteignasali má aldrei sjálfur hafa hagsmuni af kaupum eða sölu fasteignar, aðra en faglega hagsmuni og vitaskuld hagsmuni sem tengjast rétti hans til endurgjalds fyrir störf sín.
Þannig má fasteignasali ekki kaupa eign sem hann hefur til sölumeðferðar og gildir hið sama um starfsmenn hans, maka og þann sem er skyldur eða mægður fasteignasala eða starfsmanni hans í beinan legg eða tengdur með sama hætti vegna ættleiðingar. Undir þessa reglu falla einnig félög sem framangreindir aðilar eiga eignarhlut í.
Fasteignasala má heldur ekki taka eign í eigu framangreindra aðila til sölumeðferðar án þess að upplýsa sérstaklega um þessi tengsl hans við seljandann í söluyfirliti. Til viðbótar þarf fasteignasalinn að afla sérstakrar yfirlýsingar af hálfu kauptilboðsgjafa, áður en kauptilboð er gert, þess efnis að hann hafi verið upplýstur um framangreind tengsl.
Önnur hagsmunatengsl geta eftir atvikum komið til skoðunar við mat á sjálfstæði fasteignasala og ræðst matið af atvikum og aðstæðum hverju sinni. Í framangreindu ljósi kunna viðskiptatengsl fasteignasala og byggingaraðila fasteignar að gefa tilefni til nánari skoðunar, s.s. við nýbyggingu stærri fjöleignarhúsa.
Hvað svo sem öllu framangreindu líður þá ber fasteignasala að tilkynna aðilum tafarlaust með sannanlegum hætti hafi hann nokkurra annarra hagsmuna að gæta en þeirra er varða greiðslu þóknunar hans og útlagðs kostnaðar.
Pistlar
